• fim. 03. sep. 2015
  • Landslið

Frábær íslenskur sigur í Hollandi

Ice - Holland 2015

Ísland vann í kvöld frábæran sigur á Hollandi á Amsterdam ArenA. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark Íslands í fyrri hálfleik úr víti eftir að brotið var á Birki Bjarnasyni í vítateig Hollendinga. Ísland er því með 18 stig í A-riðli eftir sigurinn en liðið leikur við Kasakstan á sunnudaginn.

Leikurinn byrjaði með látum en í upphafi leiks fékk Jón Daði Böðvarsson gott færi til að skora eftir frábæra sendingu frá Jóhanni Berg. Jón Daði náði ekki til boltans og boltinn fór framhjá markinu. Bæði lið fengu hálffæri eftir þetta en það dró aldeilis til tíðinda á 32. mínútu þegar Bruno Martins Indi fékk að líta rauða spjaldið fyrir að slá Kolbein Sigþórsson í andlitið. Ekki nóg með það en einn reynslumesti leikmaður Holland, Arjen Robben, hafði stuttu fyrr farið af velli meiddur og því þurftu Hollendingar að breyta um leiksstíl. Hvorugt lið náði að koma knettinum í markið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan markalaus þegar dómarinn blés fyrri hálfleikinn af. 

Engar breytingar voru gerðar í upphafi seinni hálfleiks. Það var svo á 51. mínútu að Ísland komst yfir í leiknum en þá var brotið á Birki Bjarnasyni í vítateig Hollands og víti dæmt. Gylfi Þór fór á punktinn og skoraði og kom Íslandi yfir. Hollendingarnir færðu sig framar á völlinn eftir þetta enda ekki í góðri stöðu í riðlinum.

Kolbeinn kom svo af velli á 63. mínútu fyrir Eið Smára enda Kolbeinn búinn að fá gult spjald og engar áhættur teknar. Það var eins og dampurinn dytti úr hollenska liðinu þegar á leið enda manni færri. Á 70. mínútu var Gylfi nærri því að skora aftur en hann átti gott skot á mark Hollands sem var varið.  Jón Daði fór af velli á 77. mínútu og Alfreð Finnbogason kom inn á. Íslendingar héldu boltanum í rólegheitum eftir mesta megni enda fór að draga af leikmönnum Hollands eftir eltingarleik allan seinni hálfleikinn. Seinasta skiptingin kom á 85. mínútu þegar Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði, fór af velli og Ólafur Ingi Skúlason kom inn á.

Holland fékk eitt ágætt færi undir lokin sem fór framhjá en fleiri mörk voru ekki skoruð og Ísland vann magnaðan 0-1 sigur á Hollandi á útivelli. Íslenska liðið er því á toppnum áfram og nú með 18 stig í A-riðli en næst koma Tékkar með 16 stig.