• mið. 02. sep. 2015
  • Landslið

Hvað eiga Johan Cruyff, Ruud Gullit og Ásgeir Sigurvinsson sameiginlegt?

Island - Holland

A-landslið karla leikur við Holland á fimmtudag á Amsterdam ArenA sem er heimavöllur Ajax, en þessi glæsilegi leikvangur tekur 52.960 manns í sæti. Ríflega 3000 Íslendingar eða lauslega áætlað um 1% íslensku þjóðarinnar munu setja svip sinn á stúkuna og mæta á leikinn til að styðja við bakið á strákunum okkar.

Ef sagan er skoðuð þá hefur Ísland ekki átt góðu gengi að fagna í Hollandi og íslenska landsliðið hefur aldrei unnið það hollenska á útivelli. Aðeins einn sigur hefur unnist í opinberum keppnisleik en það var í fræknum 2-0 sigri liðsins í undankeppni EM 2016 á síðasta ári. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin í 2-0 sigrinum, annað úr víti en hitt með góðu skoti úr vítateignum.

Árið 1973 mættust liðin í undankeppni HM og er skemmst frá því að segja að leikirnir enduðu ekki vel fyrir íslenska liðið. Fyrri leikurinn tapaðist 1-8 þar sem Johan Cruyff var meðal markaskorara en mark Íslands í leiknum skoraði Einar Gunnarsson. Seinni leikurinn tapaðist 5-0 en báðir leikirnir voru leiknir í Hollandi.Árin 1976-1977 lék íslenska liðið aftur vil Holland í undankeppni HM og fór fyrri leikurinn 1-0 fyrir Hollandi en seinni leikurinn tapaðist 4-1 þar sem Ásgeir Sigurvinsson skoraði eina markið úr vítaspyrnu. Holland vann riðilinn örugglega en Ísland sat eftir á botninum.

Árin 1978 og 1979 lék Ísland við Holland í undankeppni EM. Holland átti ekki í erfiðleiknum með að vinna leikina sem fóru 0-4 á Íslandi og 3-0 í Hollandi. Hollenska liðið komst í lokakeppnina en komst ekki upp úr riðlinum þar sem Vestur Þýskaland var meðal liða og varð að lokum Evrópumeistari.

Næst mættum við Hollandi í undankeppni EM árin 1982 og 1983. Fyrri leikur liðanna endaði með 1-1 jafntefli á heimavelli og var það Atli Eðvaldsson sem skoraði mark Íslands í leiknum. Ári síðar léku liðin aftur og þá hafði Holland betur, 3-0, þar sem Ruud Gullit var meðal þeirra sem skoruðu. Holland komst ekki í lokakeppnina sem haldin var 1984 en liðið var í riðli með Spánverjum sem enduðu sem Evrópumeistarar.

Seinast mættust svo liðin í undankeppni HM árin 2008 og 2009. Fyrri leikurinn fór fram í Rotterdam þar sem heimamenn unnu 2-0 sigur en seinni leikurinn endaði með 1-2 sigri Hollands. Varnarmaðurinn Kristján Örn Sigurðsson skoraði mark Íslands í leiknum, en skemmst frá því að segja að Holland vann riðilinn með yfirburðum og lék að lokum við Spán til úrslita á HM en tapaði þar 1-0. 

Nú leika liðin saman í undankeppni EM og vann Ísland fyrri leikinn sannfærandi 2-0 á Laugardalsvelli og mun reyna að endurtaka leikinn á morgun á Amsterdam ArenA þar sem fjöldi Íslendinga mun hvetja liðið áfram til sigurs. Það er stutt stórra högga á milli en Ísland leikur aftur á Laugardalsvelli á sunnudaginn gegn Kasakstan og er löngu uppselt á þann leik.

Áfram Ísland!