Guðbjörg Pedersen fyrst kvenna til að dæma í efstu deild karla
Rúna Kristín Stefánsdóttir FIFA-dómari var í dómarateyminu á viðureign Fylkis og Keflavíkur í Pepsi-deild karla, þegar liðin mættust á Fylkisvelli á mánudagskvöld.
Í þessu samhengi er áhugavert að rifja upp að í síðara bindi 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu, eftir Sigmund Ó. Steinarsson, kemur fram að þann 16. júní 1979 hafi Guðbjörg Pedersen úr Ármanni verið aðstoðardómari á leik ÍBV og KR, þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum. Guðbjörg var þar með fyrst kvenna til að starfa við dómgæslu í efstu deild karla.
Jafnframt kemur fram að hinn aðstoðardómarinn, Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, og dómari leiksins, Arnþór Óskarsson, voru einnig Ármenningar. Fyrsta konan til að taka dómarapróf á Íslandi var hins vegar Sigrún Ingólfsdóttir úr Breiðabliki, eins og fram kemur í sömu bók, en Sigrún sótti námskeið árið 1968 og dæmdi í yngri flokkum.
Dómarinn í leik Fylkis og Keflavíkur á mánudag var Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Birkir Sigurðarson og Rúna Kristín voru aðstoðardómarar, og varadómari var Frosti Viðar Gunnarsson. Á myndinni hér að neðan má sjá þau Vilhjálm Alvar, Birki og Rúnu Kristínu, ásamt fyrirliðum Fylkis og Keflavíkur.