EM – HM – Þjóðadeildin
Evrópumót landsliða
A landslið karla leikur í haust síðustu 4 leikina í undankeppni EM eins og kunnugt er. Góður árangur í þessum leikjum getur tryggt liðinu sæti í úrslitakeppni EM 2016 í Frakklandi. Það yrði í fyrsta sinn sem A landslið karla næði slíkum árangri. Tvö efstu liðin í hverjum riðli í undankeppni EM komast beint í úrslit og að auki það lið í 3. sæti í sínum riðli undankeppninnar sem nær bestum árangri í samanburði við önnur lið í 3. sæti í riðlunum sem eru níu talsins. Þá er ótalið lið heimamanna, Frakkland, sem tekur sjálfkrafa þátt í úrslitakeppninni auk fjögurra liða sem hafa betur í umspilsleikjum sem fram fara í nóvember milli þeirra 8 liða sem hafna í 3. sæti í sínum riðli og ekki komast beint í úrslit. Alls eru þetta 24 landslið og verður það í fyrst sinn sem svo mörg lið leika til úrslita í Evrópumóti landsliða.
Heimsmeistarakeppnin
Dregið var í riðla í undankeppni HM 2018 um sl. helgi en úrslitakeppnin fer fram í Rússlandi. Riðlarnir í Evrópu í undankeppninni eru níu talsins. Í úrslitakeppnina komast 9 sigurvegarar riðlanna og þau 4 lið sem hafa betur í umspilsleikjum milli þeirra 8 liða sem hafna í 2. sæti í sínum riðlum í undankeppninni og bestum árangri ná. Ísland mun leika í 5 liða riðli með landsliðum Króatíu, Úkraínu, Tyrklands og Finnlands.
Þegar litið er til þess að aðeins 13 þjóðir komast áfram verður það að teljast ásættanleg niðurstaða í undankeppninni að hafa sloppið í drættinum við allar stórþjóðir Evrópu í knattspyrnu sem oftast ná alla leið í úrslit. Niðurröðun leikjanna liggur fyrir og munu þeir hefjast í september 2016 og þeim ljúka í október 2017.
Þjóðadeildin – ný keppni
Að lokinni undankeppni HM, haustið 2017, verður raðað í deildir í Þjóðadeildinni (Nations League), nýrri keppni á vegum UEFA. Röðun í deildirnar byggir á stuðli UEFA fyrir landslið og verður þannig að þau 12 landslið sem hæstan stuðul hafa þá um haustið verða í A deild, næstu 12 liðin í B deild, næstu 14 í C deild og síðustu 16 í D deild. Í A deild verða liðin dregin í fjóra þriggja liða riðla, sama í B deild, í C deild tvo þriggja liða og tvo fjögurra liða riðla og í D deild fjóra fjögurra liða riðla. Þessir leikir fara fram haustið 2018. Úrslitin í þessum leikjum ræður svo styrkleikaflokkun fyrir dráttinn í riðla í EM 2020 auk þess sem 4 lið munu komast í úrslitakeppni EM 2020 í gegnum Þjóðadeildina. Þetta leiðir síðan til þess að undankeppni EM 2020 verður eingöngu leikinn innan eins almanaksárs, þ.e. árið 2019 frá mars til nóvember.
Á þessu má sjá að miklar breytingar verða í keppni A landsliða karla í Evrópu frá og með haustinu 2018 og verkefni munu aukast. Nú munum við hins vegar aðeins einbeita okkur að undankeppni EM og þeim leikjum sem framundan eru í haust. Áfram Ísland.