• lau. 25. júl. 2015
  • Landslið

Heimir Hallgrímsson: Þetta hefði getað verið verra

Heimir Hallgrimsson

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, var sæmilega brattur þegar rætt var við hann eftir dráttinn í undankeppni HM í sem Ísland lenti með Króatíu, Úkraínu, Tyrklandi og Finnlandi í 5 liða riðli. 

Heimir segir riðilinn sterkan en Ísland hafi sýnt það í undankeppni EM að íslenska liðið getur veitt hvaða liði sem er verðuga mótspyrnu.„Þessi dráttur var svipaður og í undankeppni EM. Við lentum ekki á móti stærstu liðin sem voru í drættinum en að sama skapi má segja að við höfum fengið sterkustu liðin sem gátu lent í 5 liða riðli,” segir Heimir um dráttinn.

„Það eru lið þarna sem við þekkjum vel eins og Króatíu og Tyrkland þannig að við vitum hvað við erum að fara útí. Þetta eru allt sterk lið og verða allt erfiðir leikir en við höfum sýnt það að við getum unnið öll þessi lið á góðum degi. Það sem er líka gott við að fara í riðil þar sem mörg sterk lið eru þá eru liðin að reyta stig af hvort öðru og því duga mögulega færri stig til að komast á lokakeppnina.”

Aðspurður um hvort það sé betra eða verra að fara í 5 liða riðil þá segir Heimir það ekki skipta öllu máli. „Við fáum þá vonandi góða vináttuleiki. Það er ekki lykilatriði hvort við erum í 5 eða 6 liða riðli það þýðir auðvitað að við fengum ekki stærstu þjóðirnar með okkur í riðil. En allir þessir leikir verða erfiðir. Ætli svarið sé ekki að þetta hefði alveg getað verið verra.”