Varaforseti UEFA afhendir verðlaunin á laugardag
Eins og knattspyrnuáhugafólki er eflaust kunnugt um fer úrslitakeppni EM U17 kvenna fram hér á landi þessa dagana og verður úrslitaleikurinn á Vodafone-vellinum á laugardag kl. 16:00.
Í tengslum við mótið hafa hingað komið fjölmargir gestir á vegum þjóðanna sem hafa leikið í mótinu sem og á vegum UEFA.
Von er á formanni svissneska knattspyrnusambandsins, sem og forsvarsmönnum Knattspyrnusambands Spánar. Karen Espelund, sem situr í stjórn UEFA og var m.a. sérstakur gestur á ársþingi KSÍ í febrúar síðastliðnum, var viðstödd undanúrslitaleikina, sem fram fóru á miðvikudag. Á úrslitaleiknum sjálfum verður svo sérstakur gestur Michael van Praag, einn af varaforsetum UEFA. Van Praag, sem er jafnframt núverandi formaður hollenska knattspyrnusambandsins, mun afhenda verðlaunin til leikmanna að loknum úrslitaleiknum á laugardag. Van Praag kom til Íslands á vegum UEFA árið 2013, og hélt .m.a tölu á kynningarfundi Pepsi-deildanna það ár.