U17 - Sviss mætir Spáni í úrslitaleiknum
Sviss leikur við Spán í úrslitaleik U17 kvenna en svissneska liðið vann 1-0 sigur á Þýskalandi í undanúrslitum. Sviss vann 1-0 sigur á Þýskalandi í undanúrslitum í spennandi leik.
Fyrri hálfleikur leiksins var heldur bragðdaufur en hvorugt lið náði að skapa sér nein dauðafæri. Svissneska liðið varðist vel og náði að brjóta niður sóknir Þýskalands.
Það var því markalaust í hálfleik þar sem þýska liðið var sterkara án þess þó að ná að skora. Þýska liðið setti í hágír strax í byrjun seinni hálfleiks og pressaði hátt á vellinum. Færin voru fljót að koma og þurfti markmaður Sviss að taka vel á því svo þýska liðið kæmist ekki yfir í leiknum. Sviss átti líka sín færi en án þess þó að koma boltanum framhjá markmanni þýska liðsins.
Það stefndi allt í vítakeppni þegar Sviss komst í góða sókn og það var Amira Arfaoui sem skoraði framhjá markmanni Þýskalands. Þetta var eina mark leiksins og það tryggði Sviss sæti í úrslitaleiknum.
Sviss er því komið í úrslitaleikinn þar sem það mætir Spánverjum. Leikurinn fer fram á Valsvelli á laugardaginn, 4. júlí, og er blásið til leiks klukkan 16:00