U17 - Sviss tryggði sér efsta sætið í B-riðli
Það verða Sviss og Frakkland sem fara í undanúrslit úrslitakeppni U17 kvenna úr B-riðli en þetta varð ljóst eftir leiki dagsins. Sviss gerði sér lítið fyrir og skaust í efsta sætið með því að leggja Frakka að velli en Frakkar höfðu þegar tryggt sér sæti undanúrslitum. Norðmenn, sem lögðu Íra með tveimur mörkum gegn engu, sitja eftir.
Frakkland - Sviss
Það var gríðarlega fjörugur leikur sem fram fór á Fylkisvelli þegar Frakkland og Sviss mættust. Fyrir leik var ljóst að Frakkar höfðu þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum en Sviss þurfti allavega eitt stig til að komast áfram.
Frakkar byrjuðu betur og komust yfir á 9. mínútu með marki efttir aukaspyrnu. Frakkar réðu svo ferðinni en undir lok hálfleiksins sótti Sviss í sig veðrið og fengu fin færi til að jafna leikinn. Frakkar leiddu hinsvegar þegar flautað var til leikhlés.
Það var hinsvegar Sviss sem réð ferðinni frá upphafi í seinni hálfleik og á fyrstu 10 mínútum hálfleiksins áttu þær 3 sláar- og stangarskot, hreint með ólíkindum að boltinn hafnaði ekki í netinu. Frakkar fengu svo ein 3 dauðafæri í sómu sókninni um miðjan hálfleikinn en á 66. mínútu jafnaði Sviss metin og sæti í undanúrslitum í augsýn. Þær gerðu svo enn betur og tryggðu sér toppsæti riðilsins með sigurmarki í uppbótartíma við gríðarlegan fögnuð. Sannarlega fjörugur leikur á ferðinni á Fylkisvelli í dag.
Sviss mun því mæta liðinu sem hafnar í öðru sæti A-riðils en Frakkar leika gegn toppliðinu í riðlinum. Það eru þrjár þjóðir sem berjast um 2 sæti í undanúrslitum í A-riðli, Spánn, Þýskaland og England.
Noregur - Írland
Norðmenn lögðu Íra að velli á Kópavogsvelli í dag að það dugði ekki Norðmönnum til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Lokatölur urðu 2 - 0 fyrir Noreg og komu bæði mörkin í fyrri hálfleik.
Fyrra mark Norðmanna kom á 19. mínútu og það síðara á lokamínútu hálfleiksins. Norðmenn eygðu þarna von um að komast áfram þar sem Frakkar leiddu gegn Sviss á sama tíma.
Seinni hálfleikurinn var markalaus þrátt fyrir ágætis tækifæri beggja liða. Írar brenndu t.a.m. vítaspyrnu en í lok leiksins var ljóst að báðar þjóðirnar sátu eftir og eru á leið heim.