U17 - Ísland leikur við Spán á Kópavogsvelli
Það er seinasti leikdagurinn í dag í lokamóti U17 kvenna sem fram fer á Íslandi. Á miðvikudaginn eru undanúrslit og það skýrist því hvaða lið leika í undanúrslitum en eitt lið, Frakkland, hefur þegar tryggt sér sæti þar.
Klukkan 13:00 eru tveir leikir á dagskránni. Á Kópavogsvelli leika Írar við Noreg en á sama tíma leika Frakkar við Sviss á Fylkisvelli. Noregur og Sviss eiga bæði möguleika á að komast í undanúrslit en það gæti jafnvel verið innbyrðis viðureignir eða markatala sem gæti skorið úr um það. Franska liðið er komið í undarúrslitin eftir tvo sigra.
Klukkan 19:00 leika Þjóðverjar við England á Fylkisvelli en á Kópavogsvelli leika stelpurnar okkar lokaleik sinn við Spán. Það er óhætt að segja að staðan sé æsispennandi í A-riðli en Þýskaland, Spánn og England eiga öll möguleika á að komast áfram. Ísland er úr leik eftir að tapa fyrstu tveimur leikjum liðsins. England er með 4 stig eins og Spánn en Þýskaland er með 3 stig.
Það er því allt undir í riðlinum og við hvetjum alla að koma á spennandi og skemmtilega leiki í dag. Eins og áður verður fjölskyldudagskrá fyrir alla leiki dagsins þar sem boðið verður upp á pylsur og Trópí, hoppukastali verður á staðnum, landsliðsfólk áritar plaköt og happdrætti verður þar sem miðar á A-landsleiki eru í verðlaun.
Smellti hérna til að fara á síðu mótsins.