U17 kvenna - Öruggur sigur Þjóðverja á Íslendingum
Þýskaland lagði Ísland að velli í fyrstu umferð úrslitakeppni EM U17 kvenna en leikið var í Grindavík í kvöld. Lokatölur urðu 0 - 5 eftir að staðan hafði verið 0 -2 í leikhléi.
Þjóðverjar fengu óskabyrjun en strax á fjórðu mínútu opnaðist markareikningur þeirra. Íslenska liðið lagði ekki árar í bát heldur börðust af krafti gegn gríðarlega sterku þýsku liði. Þýska liðið bætti við öðru marki sínu á 35. mínútu og fóru með þá forystu inn í leikhléið.
Það tók þýska liðið þrjár mínútur að bæta við marki í seinni hálfleik en íslenska liðið hélt áfram baráttu sinni og hélt í við þýska liðið en á síðustu tíu mínútum leiksins bætti þýska liðið við tveimur mörkum með langskotum og fimm marka sigur þeirra staðreynd.
Hetjuleg barátta íslenska liðsins dugði skammt gegn geysisterku þýsku liði en gefur ágætis fyrirheit fyrir næstu leiki liðsins. Ísland mætir Englandi á Akranesi á fimmtudaginn kl. 19:00 og fyrr um daginn, eða kl. 13:00, mætast Þýskaland og Spánn einnig á Akranesi.