EM U17 kvenna hefst á mánudag
Eins og kynnt hefur verið fer úrslitakeppni EM U17 kvenna fram hér á landi dagana 22. júní til 4. júlí. Fulltrúar UEFA, keppnisliðin og fylgdarfólk þeirra, dómarar og aðrir aðilar tengdir mótinu streyma til landsins í þessari viku. Von er á meira en 300 erlendum gestum vegna mótsins, sem er líklega umfangsmesta verkefni sem KSÍ hefur tekið að sér. Eru þá ótaldir stuðningsmenn liðanna.
Leikstaðirnir eru sex og fara fyrstu leikirnir fram í Grindavík og í Kópavogi á mánudag. Íslenska liðið leikur þá gegn Þýskalandi á Grindavíkurvelli og hefst leikurinn kl. 19:00. Knattspyrnuáhugafólki gefst þarna tækifæri til að sjá efnilegustu knattspyrnukonur álfunnar leika listir sínar. Leikmennirnir öðlast ómetanlega reynslu með þátttöku í þessu móti og er fólk hvatt til að fjölmenna á leikina. Aðgangur að öllum leikjum er ókeypis.