Ísland U21 mætir Makedóníu á fimmtudag
Íslenska U21 árs landsliðið hefur leik á fimmtudag í undankeppni EM en það leikur við Makedóníu. Íslenska liðið var steinsnar frá því að komast á lokamótið eftir umspilsleiki við Dani í seinustu undankeppni.
Liðið hefur breyst mikið frá seinasta móti og eru t.a.m margir leikmenn sem leika hér á Íslandi.
Miðaverð er 1000 krónur en frítt er fyrir 16 ára og yngri.
Eyjólfur Sverrisson, landsliðþjálfari, segir leikinn mikilvægan enda getur það skilað miklu að byrja undankeppnina vel. „Þetta leggst bara vel í mig enda spennandi tímar framundan. Við erum að byrja með alveg nýtt lið og það verður gaman að sjá hvernig útkoman verður,” segir Eyjólfur Sverrisson og bætir við að hann sé ánægður með hópinn.
„Mér líst bara vel á hópinn, þarna er fullt af góðum strákum. Við þurfum að hitta á réttu blönduna til að ná árangri og búa til framtíðar leikmenn fyrir A-landsliðið.”
Langflestir leikmenn hópsins spila enn á Íslandi en það segir Eyjólfur að sé bara af hinu góða. „Það er bara jákvætt. Við ætlum að gera þá ennþá betri og búa til atvinnumenn úr þeim. Það gerum við með því að gefa þeim reynslu í alþjóðlegum fótbolta.”
Þá var komið að hinni klassísku spurningu, að spyrja út í möguleika liðsins. „Það er erfitt að segja. Við sjáum það betur þegar keppnin er farin af stað. Væntingarnar voru ekki miklar seinast en samt vorum við nálægt því að fara áfram. Ég hef trú á að við getum gert góða hluti.”