Miðar á úrslitakeppni EM 2016
Úrslitakeppni EM A landsliða karla fer fram í Frakklandi sumarið 2016. Fyrsti áfangi almennrar miðasölu á keppnina hefst 10. júní næstkomandi og stendur til 10. júlí. Í þessum fyrsta áfanga verður 1 milljón aðgöngumiða til sölu.
Aðgöngumiðar á leiki keppninnar eingöngu seldir í gegnum netsölu á vefsíðunni www.euro2016.com og eingöngu verður hægt að kaupa miða með kreditkorti. Á meðan á keppninni sjálfri stendur verða jafnframt engir miðar seldir við leikvangana sjálfa, heldur eingöngu á vefnum. Komi til þess að kaupandi geti af einhverjum ástæðum ekki nýtt miðann sinn á hann þess kost að endurselja miðann í gegnum sérstakt endursöluvefsvæði, sem mun opna í mars/apríl 2016. Sótt er um miða í gegnum vefinn og er hægt að sækja um að hámarki 4 miða í ýmsum verðflokkum á hvern leik.
Í þeim tilfellum þar sem eftirspurn á tiltekinn leik er meiri en framboð verður efnt til happdrættis og standa þá allir umsækjendur jafnt, burtséð frá því hvaðan í heiminum umsóknin kemur og burtséð frá því hvenær á tímabilinu 10. júní til 10. júlí umsóknin var skráð.
Hægt verður að kaupa miða á staka leiki, miða á tvo leiki á sama leikvangi, eða miðaröð sem tryggir að kaupandinn geti fylgt sínu liði alla keppnina (3-7 leikir). Næsti áfangi verður svo í desember, þegar dregið hefur verið í riðla fyrir úrslitakeppnina, og þá fara 800 þúsund miðar í sölu til stuðningsmanna þeirra liða sem hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni.