Reynir Björnsson: „Alltaf skemmtilegt að vinna með landsliðsfólkinu okkar”
Reynir Björnsson, læknir, hefur lengi starfað í kringum fótboltann og er hann t.a.m. í læknateymi landsliðanna.
Það er í mörg horn að líta hjá þeim sem sjá um heilbrigðismál fyrir leikmenn landsliðanna en þar gegnir Reynir stóru hlutverki. Reynir hefur einnig skoðað mikið höfuðmeiðsli leikmanna, en miklar kröfur eru uppi um að faglega sé tekið á málum sem snúa að höfuðhöggum sem leikmenn fá við keppni sem og við æfingar.
Við settumst niður með Reyni og fengum hann til að svara nokkrum spurningum sem viðkoma starfi hans í fótboltanum.
Fyrst aðeins um þig. Þú ert læknir og vinnur með landsliðunum. Hvernig kom það til og er gaman að vinna með íslenska landsliðsfólkinu?
Það var í raun í gegnum kunningsskap við Ingibjörgu Hinriksdóttur og Sigvalda Einarsson, en við erum í grunninn öll gamlir ÍK-ingar. Ég var nýkominn heim frá Noregi úr sérnámi þegar ég var inntur eftir því af Ingibjörgu hvort ég hefði áhuga á að verða læknir kvennalandsliðsins. Árin mín með íslenska kvennalandsliðinu voru mjög skemmtileg og lærdómsrík. Frábærar íþróttakonur sem lögðu mikið á sig og teymi í kringum liðið sem reyndi að styðja þær eins vel og mögulegt var. Ég hef einnig unnið með öðrum landsliðum Íslands og það er alltaf jafn skemmtilegt að vinna með landsliðsfólkinu, starfa í þessu metnaðarfulla umhverfi þar sem allir stefna að sama marki. Á mínum tíma hjá KSÍ hef ég sem sagt kynnst frábæru fólki bæði leikmönnum og fólki sem starfar í kringum liðin.
Þarftu að sérhæfa þig í einhverju til að vinna með íþróttafólki?
Það er í raun ekki krafa ennþá um einhverja sérþekkingu til að starfa með íþróttafólki, en þessir hlutir eru að breytast. Í sumum löndum er hægt að taka sérgrein í íþróttalæknisfræði, en í öðrum löndum eru í dag gerðar kröfur um námskeið til að mega starfa með liðum. Í Noregi er gerð krafa um nokkur námskeið, sem enda með diploma og verða allir sem starfa með landsliðum að hafa klárað þetta. IOC (Alþjóða Ólympíunefndin) hefur komið á stofn námi fyrir lækna sem eru að fara á Ólympíuleika, sem er fjarnám að hluta og tekur 2 ár. Þá hefur UEFA haft námskeið í "Football Medicine" og er markmiðið að sem flestir sem starfi með félagsliðum / landsliðum hafi ákveðinn grunn sem nýtist þeim vel í starfi. Íþróttalæknisfræði snýst alls ekki bara um stoðkerfisvandamál en góður grunnur þar er nauðsynlegur sem og á öðrum sviðum. Það er ekki nauðsynlegt að vera bæklunarlæknir til að starfa með íþróttafólki, en bæklunarlæknar eru og verða klárlega kjölfesta í teymum í kringum landsliðin.
Þú hefur skoðað höfuðmeiðsli nokkuð. Hvernig er staðan á þeim málum í dag?
Það er rétt. Þegar ég var að taka námskeiðin í íþróttalæknisfræði í Noregi 2004 voru fyrstu leiðbeiningar um meðferð heilahristings í íþróttum að líta dagsins ljós. Þessar leiðbeiningar voru uppfærðar 2008 og svo aftur 2012. Við hjá KSÍ gáfum svo út einfaldar leiðbeiningar um meðferð höfuðáverka í knattspyrnu árið 2014, ásamt því að kynna þær fyrir læknum, sjúkraþjálfurum og þjálfurum. Mér finnst staðan á þessum málum fara batnandi með almennri umræðu og bættri fræðslu um þessi mál. Því miður þurfti nokkur alvarleg tilfelli til þar sem t.d. þrjár toppíþróttakonur þurftu að hætta að keppa í sinni íþróttagrein eftir höfuðáverka. Fyrirlestrar um höfuðáverka munu í framtíðinni verða hluti af þjálfaramenntun hjá KSÍ og markmiðið er að setja inn á KSÍ síðuna fræðslumyndband fyrir foreldra og íþróttafólk. Hugmynd hefur verið um að hafa veggspjöld í íþróttamannvirkjum og er ÍSÍ að skoða það, en eflaust getum við alltaf gert meira og betur.
Ertu almennt ánægður með hvernig er tekið á meiðslum í íþróttum.
Já, það er ég, allavega í kringum knattspyrnuna, við erum með þannig kerfi að öll lið í efstu deildum karla og kvenna eru með lækni á bak við sig og við erum að mínu mati almennt með mjög góða sjúkraþjálfara sem fylgja liðunum. Þá höfum við mjög færa bæklunarlækna þar sem það á við. Þar sem við þurfum að mínu mati að bæta okkur er hjá yngri leikmönnum og leikmönnum sem eru undir miklu álagi - spila kannski með 2-3 flokkum. Þarna eru þjálfarar og/eða foreldrar oftast í lykilhlutverki við að passa uppá álag og gæta þess að leikmenn séu búnir að ná sér áður en farið er að keppa aftur. Einnig megum við stundum vera færari að fá álit annarra til stuðnings ef meðferð gengur ekki eins og við er búist - kannski greiningin sé röng í upphafi. Það er ekki skömm að hafa rangt fyrir sér, það kemur fyrir alla sama hversu færir sem menn eru.
Þú varst að klára UEFA læknanám. Segðu okkur frá því. Hverskonar nám er það og hvernig gagnast það þér?
Þetta er nám sem UEFA ákvað að standa fyrir eftir að læknar óskuðu eftir faglegum stuðningi í stað funda sem ekkert kom út úr. Um er að ræða 3 námskeið á 3 árum, hvert tekur 3 daga og enda þau 2 fyrstu með bóklegu og verklegu prófi, en það síðasta eingöngu með bóklegu. Fyrir hvert námskeið hefur UEFA gefið út námskeiðsgögn, um 200-300 bls til yfirlestrar. Meðal annars er fjallað um bráðalæknisfræði, meiðsli, endurhæfingu, lyfjamál, höfuðáverka, íþróttasálfræði, fæðubótarefni, næringu, endurheimt, undirbúning liða fyrir lokakeppnir, skoðun og mat á leikmönnum fyrir keppnir og sölu, UEFA medical reglur, samskipti milli lækna, innan liða o.fl., o.fl. Allt þetta nám var mjög gagnlegt fyrir mig og mun gagnast mér í minni vinnu með íþróttafólk í framtíðinni. Markmið UEFA er að læknar sem starfa með knattspyrnuliðum hafi helst tekið námskeið lík þessum. Ekki má gleyma því að hátt í 60 læknar hafa deilt reynslu sinni, farið yfir erfið mál og rætt sín á milli. Með þessum samskiptum kynnumst við betur og það skapast traust okkar á milli sem getur nýst í framtíðinni. Við munum halda sambandi áfram og hluti okkur hefur jafnvel í hyggju að hittast reglulega. UEFA gerir kröfu á okkur sem höfum klárað námskeiðin að halda þau í okkar landi. Við höfum haldið námskeið númer 1 hér á landi, en ég stefni á að halda námskeið númer 2 einhvern tímann á næsta ári fyrir lækna landsliðanna og jafnvel sjúkraþjálfarana líka.
Nú ertu læknir á EM U17 kvenna í sumar. Eru einhverjar sérstakar áherslur þar og hversu margir koma til með að vinna á mótinu tengdu heilsu leikmanna?
Það eru í raun ekki neinar sérstakar áherslur af okkar hálfu á mótinu. Við reynum að búa þannig um hnútana að það verði greið leið fyrir liðin að læknisþjónustu, þurfi þau hana, hvort sem það er um minniháttar eða alvarlegri hluti að ræða. Ég myndi giska á að það séu rúmlega 20 manns sem koma með liðunum sem koma með einhverjum hætti að heilsu leikmanna.