Ekki tapa þér í stúkunni
Markaðsherferðin Ekki tapa þér bendir á mikilvægi þess að sýna góða hegðun í hvívetna og minnir okkur á að við erum öll fyrirmyndir. Herferðin á seinasta ári beindist að forráðamönnum leikmanna á krakkamótum.
Áherslan í ár er á hegðun í áhorfendastúkunni þar sem fólk á öllum aldri kemur saman til að upplifa skemmtilegan viðburð. Herferðin í ár sýnir okkur hvernig neikvæð hegðun og ljótt orðbragð getur haft áhrif á yngri vallargesti og beinlínis eyðilagt upplifun þeirra sem mæta á leiki.
Það skiptir máli að við gætum orða okkar og munum að börn læra af því sem fyrir þeim er haft.
Skilaboðin eru skýr: Ekki tapa þér – þú ert fyrirmynd.
Markaðsherferðin var unnin af Tjarnargötunni fyrir KSÍ.