U17 kvenna með stórsigur á Norður Írum
U17 ára lið kvenna vann í dag góðan 7-0 sigur á Norður Írlandi á æfingarmóti í Færeyjum. Íslenska liðið var mun betra eins og tölurnar gefa til kynna en lokatölur urðu 7-0 sigur íslenska liðsins.
Ísland byrjaði betur í leiknum og var búið að eiga tvö ágætis færi áður en Guðrún Gyða fékk vítaspyrnu sem Rannveig Bjarnadóttir skoraði örugglega úr á 13. mínútu leiksins. Á 21. mínútu átti Rannveig sendingu inn fyrir vörn Norður Íra sem endaði hjá Guðrúnu sem kláraði færi sitt af harðfylgi. Tveimur mínútum síðar átti íslenska liðið frábæra sókn sem endaði á því að Guðrún setti boltann fyrir markið á Ásdísi sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Staðan orðin 3-0 fyrir Ísland.
Fjórða markið kom svo eftir hornspyrnu sem Aníta tók en Rannveig skallaði boltann í netið. Tveimur mínútum síðar slapp Guðrún í gegn eftir sendingu frá Rannveigu , lék á markvörðinn og setti boltann í autt markið og staðan orðin 5-0. Skiptingar í hálfleik voru eftirfarandi: Eyvör út og Hlín inn, Ásdís út og María Sól inn, Kristín Dís út og Dagbjört inn.
Sama var upp á teningnum í seinni hálfleik. Fyrsta markið kom þegar María Sól átti sendingu fyrir á Guðrúnu sem sett sjötta markið af mikilli yfirvegun. Á 55. mínútu kom Ísold inn fyrir Dröfn og Margrét inn fyrir Rannveigu. Á 62. mínútu kom Telma inn fyrir Anítu Guðmunds og Alexandra inn fyrir Katrínu Mist.
Eitt mark var svo skorað undir lok leiksins en Guðrún skoraði laglegt mark. Niðurstaða leiksins því 7-0 sigur fyrir Ísland og íslensku stelpurnar fögnuðu vel i leikslok.
Næsti leikur er gegn Færeyingum á sunnudag.