Freyr Alexandersson: “Getum verið þolanlega sátt”
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna, segist þolanlega sáttur með riðilinn sem Ísland leikur í en dregið var í undankeppni EM á mánudag.
Freyr segir engu að síður að sumir mótherjar Íslands séu óþekktar stærðir og íslenska liðið muni því ekki vanmeta neitt lið. “Við getum ekki verið neitt annað en þokkalega sátt við niðurstöðuna úr drættinum. Skotar eru á mikilli uppleið og eru með sterkt lið. Fyrirfram eigum við að vera berjast um fyrsta sætið í riðlinum. Við þurfum að fara í nokkur löng ferðalög og takast á við óþekktar stærðir, það er alltaf vandasamt verk.”
Íslenska liðið muni skoða mótherjana vel og undirbúa sig vel fyrir hvern leik. Hann segir ennfremur að markmiðin séu skýr. “Við verðum að undirbúa okkur vel fyrir hvert verkefni og setja stefnuna á að vinna riðilinn.”
Íslenska liðið spilar fyrsta leikinn í undankeppni EM þann 22. september þegar Hvíta-Rússland kemur í heimsókn. Næsti leikur er gegn Makedóníu ytra þann 22. október og svo er leikið gegn Slóveníu þann 26. október.