• þri. 21. apr. 2015
  • Landslið

Ísland hafnaði í efsta sæti undirbúningsmóts UEFA

uefa-logo-biglandscape
uefa-logo-biglandscape

U17 landslið karla gerði 1-1 jafntefli í lokaleik sínum í undirbúningsmóti UEFA, lauk keppni með 7 stig og hafnaði í efsta sæti mótsins.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en þrátt fyrir gott samspil og nokkrar efnilegar sóknir tókst ekki að skapa afgerandi marktækifæri.  Færeyska liðið varðist vel og átti nokkrar hættulegar skyndisóknir sem ekki nýttust og því var markalaust í hálfleik. 

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós eftir tæpar tíu mínútur í síðari hálfleik.  Færeyingar hreinsuðu frá markinu eftir hornspyrnu Íslands.  Boltinn var sendur rakleiðis aftur inn á vítateig færeyska liðsins og yfir vörnina, þar sem Torfi Tímoteus Gunnarsson var á auðum sjó, náði stjórn á knettinum og skoraði af miklu öryggi.  Torfi var þarna að skora þriðja mark sitt í mótinu, en hann komst einnig á blað í hinum tveimur leikjum Íslands.  Aðeins nokkrum mínútum síðar varð misskilningur í íslensku vörninni sem leiddi til sjálfsmarks  og þar með jöfnunarmarks Færeyja.

Þrátt fyrir ágætis tilburði íslenska liðsins tókt ekki að bæta við sigurmarki og því lauk leiknum með 1-1 jafntefli. 

U17 landslið karlaÍ þessu undirbúningsmóti eru þó sérreglur varðandi þetta, þar sem fram fer vítaspyrnukeppni ef jafntefli er niðurstaða venjulegs leiktíma.  Liðið sem hefur betur í vítaspyrnukeppni fær þá aukastig.  Svo fór að Færeyingar höfðu betur í vítaspyrnukeppninni að loknum þessum leik, fengu þannig þetta aukastig og ljúka því keppni með 5 stig.  Ísland hafnar engu að síður í efsta sæti mótsins með 7 stig.  Frábær árangur hjá þessum efnilegu drengjum.  Wales vann Norður-Írland 4-1 í lokaumferðinni og lýkur því keppni í 2. sæti, stigi á undan Færeyingum.  Norður-Írar reka lestina án stiga.