• sun. 19. apr. 2015
  • Landslið

Frábær endurkoma U17 karla gegn Norður-Írum

uefa-logo-biglandscape
uefa-logo-biglandscape

U17 landslið karla lék í dag, sunnudag, annan leik sinn í undirbúningsmóti UEFA sem fram fer í Færeyjum.  Mótherjar dagsins voru Norður-írar, sem byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu tvö mörk strax á fyrstu 5 mínútunum.

Smám saman komst þó jafnvægi í leikinn og Ísland náði að minnka muninn um miðjan fyrir hálfleik.  Jónatan Ingi Jónsson tók þá aukaspyrnu langt utan af velli og sendi inn á vítateig Norður-Íra.  Boltinn sveif yfir vörnina og alla leið yfir markvörðinn og hafnaði í netinu.

Rúmur stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfeik þegar fyrirliðinn Atli Hrafn Andrason jafnaði metin.  Jónatan ingi sendi knöttinn inn á teig úr aukaspyrnu og boltinn féll fyrir fætur Atla Hrafns, sem skoraði af miklu öryggi.  Torfi Tímoteus Gunnarsson fullkomnaði svo glæsilega endurkomu íslenska liðsins með sigurmarki þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum þegar hann þrumaði knettinum í markið úr vítateig Norður-Írlands.  Norður-írska liðið var þó nærri búið að jafna á lokasekúndunum þegar skot beint úr aukaspyrnu hafnaði í þverslá íslenska marksins.

Leikurinn var virkilega fjörugur og vel leikinn af hálfu beggja liða.  Íslenska liðið var þó heilt yfir betra liðið og verðskuldaði sigurinn.  Ísland hefur þar með unnið sigur í fyrstu tveimur leikjum sínum í mótinu, gegn Wales og Norður-Írlandi.