• þri. 31. mar. 2015
  • Landslið

Jafntefli í fjörugum leik í Tallinn

Byrjunarlið Íslands gegn Eistlandi
20150331_190843[1]

A landslið karla lék í kvöld, þriðjudagskvöld, gegn Eistlendingum á heimavelli þeirra í Tallinn.  Niðurstaðan var 1-1 jafntefli í fjörugum leik þar sem bæði lið fengu fjölmörg marktækifæri og áhorfendur fengu svo sannarlega mikið fyrir peninginn.

Íslenska liðið byrjaði betur og hafði undirtökin framan af.  Rúrik Gíslason skoraði þegar um 10 mínútur voru liðnar og kom markið eftir gott samspil, sem lauk með því að Jón Daði Böðvarsson renndi knettinum á Rúrik sem lagði boltann snyrtilega í fjærhornið.

Um miðjan fyrri hálfleik fengu Eistar gott færi, sem Ögmundur varði vel.  eftir rúmleg ahálftíma leik slapp Alfreð inn fyrir eistnesku vörnina og inn í vítateig með varnarmann hangandi í sér.  Sá togaði greinilega í treyjuna hjá Alfreð, sem misst við það jafnvægið og skaut framhjá.  Bæði lið fengu fleiri færi, þar á meðal komst Viðar Örn Kjartansson einn gegn markmanni Eista, sem varði.  Þá áttu heimenn stórhættulega sókn í lok fyrri hálfleiks og hörkuskalla, sem Ögmundur varði með tilþrifum.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir íslenska liðið og besti maður eistneska liðsins, Konstantin Vassiljev, jafnaði metin eftir tíu mínútna leik.  Það sem eftir lifði leiks skiptust bæði lið á að sækja endanna á milli og var leikurinn virkilega fjörugur.  Hvorugt lið bætti þó við marki og 1-1 var niðurstaðan.

Næsta verkefni íslenska liðsins er heimaleikur gegn Tékkum í undankeppni EM 2016, toppslagur á Laugardalsvellinum 12. júní.  

Eistland-Ísland