Leikið í Eistlandi á þriðjudag
A landslið karla mætir Eistlandi í vináttuleik á þriðjudag. Leikurinn fer fram á A. Le Coq Arena leikvanginum í höfuðborg Eistlands, Tallinn. Leikvangurinn var byggður árið 2001 og tekur 9.300 manns í sæti. Landslið Eistlands leikur alla sína leiki á A. Le Coq arena, sem er jafnframt heimavöllur FC Flora Tallinn, sem er sigursælasta félagslið landsins. Teitur Þórðarson þjálfaði bæði Flora og eistneska landsliðið árin 1995-1999 við góðan orðstír. Ísland og Eistland mættust síðast í A landsliðum karla fyrir tæpu ári síðan, eða í júní 2014, og sáu þá rúmlega 5 þúsund áhorfendur Kolbein Sigþórsson skora eina mark leiksins á Laugardalsvellinum úr vítaspyrnu.
Einn frægasti leikur íslenskrar knattspyrnusögu er þó vináttuleikur í Tallinn 1996. Bjarki Gunnlaugsson skoraði þrennu í leiknum og á 62. mínútu gerðist sá sögulegi atburður að Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á fyrir föður sinn, Arnór.
Leikurinn fer sem fyrr segir fram á þriðjudag, hefst kl. 16:00 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu og opinni dagskrá á SkjáSport.