Leikjahrina í undankeppni EM 2016 framundan
Eins og knattspyrnuáhugafólki er eflaust kunnugt er leikjahrina framundan í undankeppni EM karlalandsliða 2016. Um helgina fara fram 26 leikir í riðlunum níu, en einn leikur fer síðan fram á þriðjudag. Að venju eru margir spennandi leikir á dagskrá.
Á föstudag verður leikið í C-E-G riðlum, þar sem m.a. Eistlendingar, sem taka á móti íslendingum í vináttuleik 31. mars, mæta Svisslendingum og Spánverjar fá Úkraínumenn í heimsókn. Þá mæta Svíar Moldóvum í Chisinau og Svartfellingar taka á mótu Rússum.
Laugardagurinn býður upp á þéttan leikjapakka, þar sem fara fram leikir í A-H-B riðlum. Ísland er í A-riðli og mætir Kasakstan í Astana og í Hollandi er stórleikur milli Hollendinga og Tyrkja. Norðmenn sækja Króata heim til Zagreb og Belgar taka á móti Kýpverjum.
Leikið verður í D-F-I riðlum á sunnudag. Nýjasta UEFA-aðildarþjóðin, Gíbraltar, leikur gegn liði Skotlands á Hampden Park í Glasgow og Þjóðverjar sækja Georgíumenn heim. Færeyingar verða í eldlínunni í Rúmeníu og í Lissabon mætast heimamenn, Portúgalar, og Serbar.
Á þriðjudag er síðan einn leikur, Ísrael - Belgía, sem átti upphaflega að fara fram á fyrsta leikdegi undankeppninnar í september 2014, en var frestað.