U17 landslið kvenna til Dublin
U17 landslið kvenna leikur tvo vináttuleiki við Íra í mars og eru þeir leikir hluti af undirbúningi liðsins fyrir úrslitakeppni EM U17 kvenna sem fram fer hér á landi næsta sumar. Íslenska liðið fer til Írlands 20. mars og kemur heim 23. mars. Úlfar Hinriksson, þjálfari liðsins, hefur valið 18 manna hóp í verkefnið. Einn leikmaður er á mála hjá erlendu félagsliði, en það er Andrea Celeste Thorisson, sem leikur með sænska liðinu FC Rosengård. Hinir 17 leikmennirnir koma frá 10 íslenskum félögum og á Breiðablik þar flesta fulltrúa, eða fjóra.