• mán. 09. mar. 2015
  • Landslið

Algarve 2015 - Markalaust jafntefli gegn Bandaríkjunum

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi á Algarver
IMG_4968

Íslenska kvennalandsliðið náði frábærum úrslitum í kvöld í lokaleik riðilsins á Algarve mótinu en leikið var í Lagos.  Markalaust jafntefli varð niðurstaðan en Bandaríkin leika engu að síður til úrslita á mótinu, gegn Frökkum.  Ísland mun að öllum líkindum leika gegn Japan um níunda sætið en ekki hefur verið tilkynntur leikstaður og tími.

Það var vel skipulagt og baráttuglatt íslenskt lið sem mætti því bandaríska í kvöld.  Návígin voru mörg og hörð en marktækifærin fá.  Eins og búast mátti við þá voru þær bandarísku heldur meira með boltann en þeim gekk engu að síður illa að skapa sér færi og oftar en ekki reyndu þær langar sendingar fram völlinn.  Varnarleikur íslenska liðsins var í mjög háum gæðaflokki, frá fremsta manni og fyrir aftan alla stóð Guðbjörg Gunnarsdóttir örugg í markinu.

Besta færi Íslands fékk Hólmfríður Magnúsdóttir undir lok fyrri hálfleiks eftir góða sókn en markvörður Bandaríkjanna varði glæsilega.  Baráttan var mikil frá upphafi til enda þar sem hvorugt liðið gaf þumlung eftir og mikið var um pústra.

Góður lokaleikur gegn einu af allra bestu liðum heims og næstu mótherjar eru ríkjandi heimsmeistarar Japans.  Þessir leikir eru frábær undirbúningur fyrir íslenska liðið sem undirbýr sig nú fyrir undankeppni EM en dregið verður í riðla þann 20. apríl næstkomandi.