Algarve 2015 - Eins marks tap gegn Noregi
Íslenska kvennalandsliðið beið lægri hlut gegn Noregi í kvöld á Algarve mótinu en þetta var annar leikur liðsins. Lokatölur urðu 1 - 0 fyrir Noreg og kom markið strax á 9. mínútu leiksins.
Markið sem skildi liðin að þegar uppi var staðið var af ódýrari gerðinni en fyrri hálfleikur var ekki vel leikinn en baráttan svo sannarlega til fyrirmyndar. Mikið af löngum sendingum hjá báðum liðum og marktækifærin vart sjáanleg. Undir lok hálfleiksins vildi íslenska liðið fá vítaspyrnu þegar brotist virtist vera á Hörpu Þorsteinsdóttur innan vítateigs en ekkert var dæmt.
Seinni hálfleikur var mun betur leikinn og þá sérstaklega af íslenska liðinu. Það stjórnarði leiknum lengst af og fengu fín færi til að skora þó svo að herslumuninn hafi vantað. Norska liðið ógnaði með skyndisóknum en okkar stúlkur voru sterkari meirihluta síðari hálfleiksins. Það voru hinsvegar Norðmenn sem fögnuðu sigri og hafa þrjú stig eftir 2 leiki en íslenska liðið er enn án stiga.
Lokaleikur Íslands í riðlinum verður gegn Bandaríkjunum á mánudaginn en bandaríska liðið lagði Sviss í dag með þremur mörkum gegn engu.