Algarve 2015 - Undirbúningur fyrir Noregsleikinn
Íslenska liðið æfði tvisvar sinnum í dag en hópurinn undirbýr sig undir leikinn gegn Noregi á morgun, föstudaginn 6. mars. Þeir leikmenn sem mest léku í gær gegn Sviss tóku því frekar rólega á fyrri æfingunni á meðan aðrir leikmenn tóku vel á því. Allir leikmenn voru með á æfingunni nema Katrín Ómarsdóttir.
Á seinni æfingunni var farið yfir leikskipulag morgundagsins sem og föst leikatriði og voru aðstæður ágætar þó svo að aðeins hafi blásið seinni part dagsins. Norðmenn biðu lægri hlut gegn Bandaríkjunum í gær, 1 – 2, en eru að venju með mjög sterkt lið. Margir leikmenn íslenska og norska liðsins þekkjast vel, hafa leikið saman í Noregi og ennfremur eru íslenski og norski hópurinn saman á hóteli hér á Algarve og gengur sú sambúð mjög vel.
Leikur morgundagsins hefst kl. 18:00 að íslenskum tíma en í hinum leik riðilsins mætast Sviss og Bandaríkin.