Mottumars 2015 - Sýnum samstöðu!
KSÍ hvetur knattspyrnufólk um allt land til að sýna samstöðu og taka þátt í átakinu Mottumars 2015. Möguleikanir eru endalausir og ef þú hefur einhvern tímann hugsað þér að prófa að safna skeggi, þá er tækifærið núna! Þau sem ekki hafa skeggvöxt geta líka tekið virkan þátt með hvatningu eða fjárframlögum.
Mottumars er tákn Krabbameinsfélags Íslands í baráttunni gegn krabbameini hjá karlmönnum. Árlega greinast um 750 karlmenn með krabbamein á Íslandi — synir, bræður, pabbar, afar, vinir og makar. Og allir hinir.
Krabbamein á ekki að vera feimnismál. Mottan er táknræn, hún minnir okkur á að ræða þessi mál og um leið að fá menn til að hugsa um heilsuna. Því er um að gera að safna í góða og hraustlega mottu, heita á menn og málefni og sýna samstöðu.
Átak Mottumars er tvíþætt; bæði sem árveknis- og fjáröflunarátak. Þeir fjármunir sem safnast í átakinu eru notaðir í forvarnir, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknir. Allar nánari upplýsingar má finna hér undir heimasíðu Krabbameinsfélagsins.
Hægt er að senda fyrirspurn á mottumars@krabb.is