• sun. 22. feb. 2015
  • Landslið

U19 kvenna - Aftur fimm marka sigur á Færeyjum

Marki fagnað hjá U19 kvenna í leik gegn A landsliði Færeyja í Fífunni 22. febrúar 2015
U19-kvenna-Faereyjar

Stelpurnar í U19 unnu í dag A landslið Færeyja en þetta var seinni vináttulandsleikur liðanna á þremur dögum.  Lokatölur urðu 6 - 1 fyrir Ísland eftir að staðan í leikhléi hafði verið jöfn, 1 - 1.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram í Akraneshöllinni í kvöld en vegna veðurskilyrða og færðar var ákveðið að færa leikinn í Fífuna.

Þessar breytingar virtust ekki há gestunum á nokkurn hátt í byrjun því þær komust yfir strax á þriðju mínútu leiksins.  Íslensku stelpurnar þurftu tíma til að ná áttum en á 26. mínútu jöfnuðu þær metin með marki Ernu Guðjónsdóttur.  Þannig stóðu leika þegar flautað var til leikhlés og staðan allt önnur en í Reykjaneshöllinni tveimur dögum áður.

En síðari hálfleikurinn var eign íslensku stelpnanna frá upphafi til enda og Arna Dís Arnþórsdóttir kom íslenska liðinu yfir á fyrstu mínútu hálfleiksins.  Arna Dís bætti við öðru marki sjö mínútum síðar og á 58. mínútu bætti Lillý Rut Hlynsdóttir við fjórða markinu.  Síðustu tvö mörkin komu svo á 84. og 90. mínútu og þar var Guðrún Kariítas Sigurðardóttir að verki í bæði skiptin og örggur sigur í höfn. 

Þessir leikir voru undirbúningur fyrir bæði lið vegna næstu verkefna þeirra.  Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir milliriðla EM sem fram fara í Frakklandi í april en færeyska liðið fyrir forkeppni EM kvenna.