U19 kvenna - Öruggur sigur á Færeyjum
Stelpurnar í U19 unnu öruggan sigur á A landsliði Færeyja en þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í Reykjaneshöllinni í dag. Lokatölur urðu 5 - 0 fyrir íslenska liðið sem leiddi með þremur mörkum í leikhléi.
Íslensku stelpurnar réðu ferðinni frá upphafi í þessum leik og komust yfir á 7. mínútu þegar Arna Dís Arnþórsdóttir braut ísinn og liðið fékk svo vítaspyrnu sem Andra Rán Snæfeld Hauksdóttir skoraði úr á 24. mínútu. Þremur mínútum fyrir leikhlé bætti svo Arna Dís við sínu öðru marki og þriðja marki Íslendinga.
Íslenska liðið réði ferðinni einnig í síðari hálfleik en færeyska liðið átti t.a.m skot í þverslá á íslenska markinu. Fjórða markið kom á 66. mínútu þegar Esther Rós Arnarsdóttir setti boltann í netið og síðasta markið í leiknum skoraði Aldís Ylfa Heimisdóttir á 78. mínútu. Íslensku stelpurnar fengu fín færi til að bæta við mörkum en færeyski markvörður varði á tíðum mjög vel.
Liðin mætast svo aftur á sunnudaginn kl. 19:00 í Akraneshöllinni en þessir leikir eru undirbúningur fyrir bæði lið vegna næstu verkefna þeirra. Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir milliriðla EM sem fram fara í Frakklandi í april en færeyska liðið fyrir forkeppni EM.