• mið. 18. feb. 2015
  • Fræðsla

Námskeið í hugmyndafræði Coerver Coaching 21. - 22. febrúar

coerver-logo

Dagana 21.-22. febrúar mun KSÍ bjóða þjálfurum upp á námskeið í hugmyndafræði Coerver Coaching.

Hingað til lands kemur Brad Douglass en hann starfar sem Technical Director hjá Coerver Coaching. Brad kom einnig hingað til lands í ársbyrjun 2013 og hélt vel heppnað Coerver Coaching námskeið á vegum KSÍ sem var gríðarlega vel sótt.

Námskeiðið verður með svipuðu sniði og í janúar 2013 þegar Brad kom hingað síðast. Hann mun þó koma með nýjar æfingar og byggja ofan á það sem hann sýndi 2013. Námskeiðið hentar því bæði þeim sem mættu síðast og einnig þeim sem ekki hafa komið áður á Coerver námskeið.

Námskeiðið er opið öllum og námskeiðsgjaldið er 15.000 kr. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á dagur@ksi.is með upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer eða með því að hringja í síma 510-2977.

Námskeiðið telur sem 15 tímar í endurmenntun á UEFA A og UEFA B þjálfaragráðum.

Námskeiðið verður haldið í Hveragerði og dagskrá námskeiðsins má sjá hér að neðan.

Nánari upplýsingar um Coerver Coaching og Brad Douglass:

Margir ættu að kannast við hollenska þjálfarann Wiel Coerver sem var á sínum tíma brautryðjandi á sviði tækni og færni þjálfunar og er æfingaáætlun Coerver Coaching undir áhrifum frá honum.

Coerver Coaching er: Hugmynda- og æfingaáætlun í knattspyrnu sem þjálfar upp færni og hentar öllum aldurshópum en sérstaklega aldrinum 6-16 ára á öllum getustigum, og einnig foreldrum, þjálfurum og kennurum. Hugmyndafræði sem einblínir á að þróa færni einstaklingsins og leikæfingar í smáum hópum. Viðurkennt og mælt með af mörgum af stærstu og virtustu knattspyrnusamböndum heims, leikmönnum, sérfræðingum og félögum svo sem:

Knattspyrnusamband Frakklands, Knattspyrnusamband Ástralíu, Knattspyrnusamband Kína, Knattspyrnusamband Japans, FC Bayern, Newcastle United FC, Arsenal FC og Adidas

Brad Douglass hefur víða komið við á sínum ferli. Hann hefur m.a. kennt á námskeiðum hjá mörgum knattspyrnusamböndum víðs vegar um heiminn, svo sem í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Skotlandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Möltu, Póllandi, Kína og Færeyjum. Auk þess hefur hann starfað með liðum á borð við AC Milan, Rosenborg, Bröndby og HJK Helsinki. Hann hefur einnig komið að starfi UEFA og FIFA í kringum einstaka viðburði.

Dagskrá Coerver Coaching