Sport TV fær fjölmiðlaverðlaun KSÍ
Á árinu sem leið gafst knattspyrnuáhugafólki kostur á að sjá fleiri innlenda leiki í beinni útsendingu vefsjónvarps en nokkru sinni fyrr. Vefsíðan Sport TV á þarna stærstan þátt.
Alls var sýnt beint frá 24 leikjum Pepsi-deildar kvenna á vefsíðunni Sport TV og hafa útsendingar frá leikjum deildarinnar aldrei verið fleiri. Þá sýndi Sport TV beint frá 27 leikjum í 1. deild karla, einum leik í úrslitakeppni 4. deildar karla og einum leik í úrslitakeppni 1. deildar kvenna. Rétt er að geta þess jafnframt að 39 leikir í vor- og vetrarmótum (Lengjubikar, Reykjavíkurmóti og Íslandsmóti innanhúss) voru í beinni útsendingu á Sport TV, samanborið við 6 leiki árið á undan. Að auki sýndi Sport TV beint frá einum leik í 8-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna og sýndi einnig báða undanúrslitaleikina.
Þetta þýðir að á árinu 2014 gat knattspyrnuáhugafólk horft á tæplega eitt hundrað leiki í beinni útsendingu á Sport TV.