Karen Espelund sérstakur gestur á ársþingi KSÍ
Sérstakur gestur á 69. ársþingi KSÍ, sem fram fer á Hilton Hótel Nordica á laugardag, verður hin norska Karen Espelund, sem setið hefur í framkvæmdastjórn UEFA síðan 2012.
Knattspyrnan hefur átt hug og hjarta Karenar all tíð. Hún lék yfir 300 leiki fyrir lið Trondheims Ørn og lék tvisvar með norska A-landsliðinu. Meðfram leikmannsferlinum starfaði hún ötullega fyrir sitt félag og sá áhugi og sú reynsla skilaði henni fljótlega í verkefni fyrir norska knattspyrnusambandið. Karen sat í stjórn Knattspyrnusambands Noregs frá árinu 1988 til 1999, þegar hún tók við stöðu framkvæmdastjóra sambandsins, sem hún gegndi um 10 ára skeið. Hún hefur setið í kvennanefnd UEFA síðan 1990 og í framkvæmdastjórn UEFA síðan 2011.
Ásamt því að vera sérstakur gestur á ársþinginu er hún á meðal fyrirlesara á sérstöku málþingi um stöðu kvennaknattspyrnu, sem haldið er í höfuðstöðvum KSÍ í dag, föstudag.