• þri. 10. feb. 2015
  • Landslið

U17 karla - Sigur gegn Norður Írum í vináttulandsleik

U17 karla 2015 - Ísland-N. Írland í Kórnum
90d4738d-c192-40c9-97da-e62728dfbf43

Ísland og Norður Írland mættust í kvöld í vináttulandsleik hjá U17 landsliðum karla og var leikið í Kórnum.  Lokatölur urðu 1 - 0 fyrir íslenska liðið eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.

Fyrri hálfleikur var heldur tíðindalítill hvað færi varðar þó svo baráttan hafi verið í stakast lagi hjá báðum liðum.  Norður Írar voru heldur meira með boltann, án þess þó að opna vörn Íslendinga.  Okkar strákar áttu einnig nokkrar álitlegar sóknir en herslumuninn vantaði til að gera úr þeim marktækifæri.  Í uppbótartíma átti Sveinn Aron Guðjohnsen ágæta tilraun úr aukaspyrnu en markvörður Norður Íra sá við skotinu. 

Gestirnir fengu svo gott færi í upphafi síðari hálfleiks sem var heldur opnari en sá fyrri.  Íslenska liðið sótti í sig veðrið þegar leið á hálfleikinn og var heldur sterkari aðilinn í það heila í hálfleiknum.   Íslenska liðið komst svo yfir á 74. mínútu.  Eftir góðan undirbúning frá Kolbeini Finnssyni og Jóni Degi Þorsteinssyni, var það Daði Snær Ingason sem kom boltanum í netið af stuttu færi.  Það reyndist eina mark leiksins og íslenska liðið fagnaði nokkuð sanngjörnum sigri.

Þjóðirnar mætast svo aftur, á sama stað, á fimmtudaginn og hefst sá leikur á nokkuð óvenjulegum tíma eða kl. 12:00 á hádegi.