A kvenna - Vináttulandsleikur gegn Hollandi í apríl
Knattspyrnusambönd Íslands og Hollands hafa komist að samkomulagi um að kvennalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik í Kórnum, 4. apríl næstkomandi. Einnig hefur verið samið um að þjóðirnar mætist svo aftur, þá í Hollandi, á næsta ári.
Þessi vináttulandsleikur gegn Hollandi í apríl mun koma í kjölfarið á næsta verkefni kvennalandsliðsins sem er hið sterka Algarve mót sem hefst í byrjun mars. Þar er Ísland í riðli með Bandaríkjunum, Noregi og Sviss og verður fyrsti leikurinn gegn síðastnefndu þjóðinni, 4. mars.
Dregið verður svo í undankeppni EM kvenna 2017 þann 13. apríl en það eru einmitt Hollendingar sem verða gestgjafar úrslitakeppninnar að þessu sinni. Holland, sem gestgjafar, munu því fara beint í úrslitakeppnina en spennandi verður að sjá með hvaða þjóðum Ísland lendir í riðli að þessu sinni. Þessir leikir eru því mikilvægir liðir í undirbúningi fyrir EM.
Leikurinn fer fram þann 4. apríl, klukkan 14:00 í Kórnum.