A karla - Undirbúningur fyrir seinni leikinn gegn Kanada í fullum gangi
Strákarnir undirbúa sig af kappi fyrir seinni vináttulandsleikinn gegn Kanada en hann fer fram á morgun, mánudaginn 19. janúar og hefst kl. 21:00 að íslenskum tíma. Íslendingar unnu fyrri leikinn með tveimur mörkum gegn einu.
Æft var snemma í gær og voru þeir leikmenn sem spiluðu mest daginn áður, að taka því rólega í endurheimt. Aðrir tóku vel á því, ekki síst markverðirnir sem tóku vel á því undur vökulum augum Guðmundar Hreiðarssonar markvarðaþjálfara. Seinni hluti dagsins var svo frjáls fram yfir kvöldmat og notuðu einhverjir tækifærið til að kíkja í skemmtigarð en aðrir kíktu í fáeinar búðir. Um kvöldið var svo fundað og farið yfir síðasta leik í máli og myndum.
Það er svo æfing framundan í dag á æfingasvæði UCF og leikurinn svo á morgun á sömu slóðum. Nokkur fjöldi af Íslendingum mættu á fyrri leikinn og létu vel í sér heyra af pöllunum og verður spennandi að sjá hvort fleiri komi á morgun. Á morgun er frídagur hér í Bandaríkjunum en þá er Martin Luther King heiðraður en hann hefði orðið 86 ára, 15. janúar síðastliðinn.
Sólin hefur aðeins látið sjá sig, skein vel í gær og birtist af og til í dag. Veðurspáin á leikdag gerir ráð fyrir nokkuð mikilli sól og um 18 stiga hita. Keppnisvöllurinn var nokkuð laus í sér í síðasta leik og var nokkuð tættur eftir fyrri leikinn.
Leikurinn á morgun verður í beinni útsendingu hjá SkjáSport en leikurinn hefst, eins og áður var skrifað, kl. 21:00 að íslenskum tíma.