A karla - Eins marks sigur á Kanada
ísland lagði Kanada með tveimur mörkum gegn einu í fyrri vináttulandsleik þjóðanna sem fram fara í Orlando. Bæði mörk Íslands komu í fyrri hálfleik en Kanada minnkaði muninn þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum.
Leikurinn var aðeins sex mínútna gamall þegar Kristinn Steindórsson, í sínum fyrsta landsleik, hafði komið Ílslandi yfir. Rúrik Gíslason gerði vel þegar hann fórr upp kantinn, sendi fyrir á fjærstöng þar sem Kristinn skallaði boltann af yfirvegun í fjærhornið. Eftir markið þá voru Kanadamenn meira með boltann og gekk íslenska liðinu ekki nógu vel að halda boltanum innan liðsins. En áður en flautað var til leikhlés þá skoraði Matthías Vilhjálmsson með skalla eftir að, fyrirliðinn, Sölvi Geir Ottesen, hafði skallað boltann til hans.
Tveggja marka forysta í leikhléi en íslenska liðinu gekk betur að halda boltanum innan liðsins í síðari hálfleik. Eina mark hálfleiksins var hinsvegar Kanadamanna sem kom með skalla eftir fyrirgjöf. Okkar strákar fengu hinsvegar nokkur góð færi til að bæta við, Hólmbert Friðjónsson t.a.m. tvisvar og Elías Már Ómarsson átti gott skot að marki en báðir þessir leikmenn léku sinn fyrsta landsleik í kvöld. Það gerðu einnig Kristinn Steindórsson og Ólafur Karl Finsen. Það voru svo Íslendingar sem fögnuðu sigri þegar bandaríski dómarinn flautaði til leiksloka og sigurinn sanngjarn.
Þjóðirnar mætast aftur á mánudaginn á sama stað en sá leikur hefst kl. 21:00 að íslenskum tíma og verður einnig í beinni útsendingu hjá SkjáSport.