Íslenskur sigur í Kórnum
U23 landslið kvenna vann góðan 3-1 sigur á Póllandi í vináttulandsleik í Kórnum í Kópavogi í kvöld, miðvikudagskvöld. íslenska liðið var sterkari aðilinn í leiknum og var sigurinn fyllilega verðskuldaður. Elín Metta gerði tvö marka Íslands og Katrín Ásbjörnsdóttir eitt.
Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og skapaði hraði og áræðni framherja liðsins nokkurn usla í pólsku vörninni.
Elín Metta Jensen fékk tvö færi í sömu sókn á 13. mínútu. Fyrst fékk hún úrvalsfæri þegar hún komst ein gegn Önnu Szymanska í pólska markinu eftir stungusendingu frá Guðmundu Brynju Óladóttur. Szymanska var fljót út á móti og varði vel. Strax á eftir fékk Elín Metta fyrirgjöf frá hægri inn í markteiginn og aftur varði pólski markvörðurinn.
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 13. mínútu. Guðmunda Brynja skallaði þá boltann inn fyrir pólsku vörnina og sendi Elínu Mettu eina í gegn, og skoraði hún af miklu öryggi.
Elín Metta bætti öðru marki við á 27. mínútu þegar hún komst inn í sendingu varnarmanns til baka á markvörðinn Szymanska, lék á hana og renndi boltanum í markið.
Guðrún Arnardóttir var nálægt því að bæta þriðja markinu við eftir rúman hálftíma, en aftur varði Szymanska vel af stuttu færi.
Fyrri hálfleikurinn var góður hjá íslenska liðinu og var okkar lið betra en það pólska á öllum sviðum. Mörkin hefðu mögulega getað orðið fleiri, en m.a. fóru tvö skot úr aukaspyrnum beint á markvörð Pólverjanna, auk fleiri marktækifæra. Pólska liðið náði í raun aldrei að ógna, aðeins einu sinni var skotið að íslenska markinu og Sandra Sigurðardóttir varði af öryggi.
Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri og sókn Íslands hélt áfram. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir var nærri búin að skora úr aukaspyrnu á 54. mínútu, en pólski markvörðurinn náði að slá boltann yfir markið.
Sonný Lára Þráinsdóttir stóð á milli stanganna hjá íslenska liðinu í seinni hálfleik og varði hún aukaspyrnu frá Patrycju Balcerzak eftir um 10 mínútur.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði þriðja mark Íslands á 71. mínútu, fékk þá langa sendingu fram völlinn, lék á varnarmann og skoraði með óverjandi skoti í fjærhornið.
Íslenska liðið sótti áfram að pólska markinu, en náði ekki að bæta við marki. Anna Zapala minnkaði hins vegar muninn fyrir gestina með frábæru marki, þrumuskoti utan teigs á 83. mínútu.
Fleiri urðu mörkin ekki og var sigur íslenska liðsins verðskuldaður.
Smelltu hérna til að skoða myndir úr leiknum.