• þri. 13. jan. 2015
  • Landslið

Ísland mætir Póllandi í Kórnum á miðvikudag - ókeypis aðgangur

Guðmunda Brynja og Glódís
291c35f3-381e-4fb4-89f1-1ff6be5805df

U23 landslið kvenna mætir Póllandi í vináttulandsleik í knattspyrnuhúsinu Kórnum á miðvikudag kl. 18:00.  Pólverjar tefla reyndar fram A landsliði sínu í þessum leik og í íslenska hópnum eru jafnframt fjórir eldri leikmenn.


Í A landsliðum kvenna hafa Ísland og Pólland mæst þrisvar sinnum og hefur Ísland unnið sigur í öllum leikjunum.  Þjóðirnar voru saman í riðli í undankeppni EM 2005, þar sem Ísland vann tíu marka sigur á Laugardalsvelli.  

Ísland hefur aðeins einu sinni áður leikið U23 landsleik kvenna, en það var 2-2 jafntefli gegn Skotlandi í ágúst 2012, en sjö af 18 leikmönnum í íslenska hópnum sem mætir Póllandi á miðvikudag tóku einmitt þátt í leiknum gegn Skotum.

Þessi leikur Við Pólland er kærkomið tækifæri fyrir marga leikmenn sem hafa verið að banka á dyr landsliðsins til að sýna sig og sanna fyrir Frey Alexanderssyni, þjálfara íslenska liðsins, og er knattspyrnuáhugafólk hvatt til að skella sér í Kórinn.  Aðgangur að leiknum er ókeypis.