• þri. 13. jan. 2015
  • Landslið

A karla - Landsliðið komið til Orlando

University of Central Florida Soccer and Track Field
UCF-Soccer-Complex-1

Íslenska karlalandsliðið kom til Orlando í gærkvöldi eftir langt ferðalag.  Framundan eru tveir vináttulandsleikir gegn Kanada sem verða leiknir á háskólavelli University of Central Florida hér í Orlando.  Fyrri leikurinn verður föstudaginn 16. janúar en sá síðari mánudaginn 19. janúar og verða báðir leikirnir í beinni útsendingu hjá SkjáSport.

Leikmenn komu að venju víða að en að þessu sinni kom allur hópurinn saman í Leifsstöð, hópurinn sem kom frá Íslandi og leikmennirnir sem komu frá Skandinavíu.  Flugið til Orlando tók 8 tíma og voru menn fegnir að komast inn á hótel um 11 klukkutímum eftir að lagt var stað frá Íslandi.  Dagurinn var þá orðinn langur ekki síst fyrir þá leikmenn sem flugu frá Skandinavíu.  Kristinn Steindórsson hittti svo hópinn á hótelinu en hann leikur með Columbus Crew í MLS deildinni í Bandaríkjunum.

Í dag verður svo æft á háskólasvæðinu hjá fyrrnefndum skóla sem og fundað verður.  Nokkuð mikið hefur rignt hér í Orlando síðustu daga en veðrið og aðstæður engu að síður mildar og góðar.

Kanadamenn hafa tilkynnt hópinn sinn og má sjá hann hér.  Líkt og hjá íslenska liðinu þá geta þeir ekki kallað alla sína leimenn til í þessa leiki en margir leikmanna hópsins leika í MLS deldinni en einnig eru þarna leikmenn sem leika í Þýskalandi, Grikklandi, Svíþjóð og víðar.