• þri. 13. jan. 2015
  • Landslið

A karla - Allir leikmenn með á æfingu dagsins

20150113_112634

Eins og kunnugt er þá er íslenska karlalandsliðið statt í Orlando þessa dagana þar sem leiknir verða tveir vináttulandsleikir við Kanada, 16. og 19. janúar.  Eftir langt ferðalag í gær þá var fyrsta æfingin í dag þar sem menn hristu ferðaþreytuna úr sér og voru allir leikmenn hópsins með á æfingunni.

Ennfremur voru tveir fundir haldnir í dag auk þess sem að nýir leikmenn voru boðnir velkomnir í hópinn en fimm leikmenn hafa ekki verið í landsliðshópnum áður. 

Æft var á æfingasvæði University of Central Florida (UCF) en leikirnir tveir fara fram á keppnisvelli knattspyrnuliðs skólans.  Skólasvæðið er í nágrenni við hótel íslenska liðsins, í innan við 10 mínúta akstur.  Þessi skóli er næstfjölmennasti háskóli Bandaríkjanna, á eftir hinum kunna Arizona State University, með ríflega 60.000 nemendur.  Aðstæður eru allar hinar bestu á svæðinu til íþróttaiðkana en í næsta nágrenni við æfingavöllinn sem íslenska liðið æfði á má finna m.a. hafnaboltaleikvang, mjúkboltaleikvang, frjálsíþróttahús og frjálsíþróttavöll, körfuboltahöll, líkamsræktarhöll að ógleymdum 45.000 manna leikvangi fyrir amerískan fótbolta.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru góðar í dag, skýjað og um 18 stiga hiti og má búast við slíku veðri næstu daga að viðbættum einhverjum rigningarskúrum.

Þess má geta að fleiri knattspyrnulið eru um þessar mundir í Orlando heldur en landslið Íslands og Kanada.  Þýsku félögin Bayern Leverkusen og Köln nýta fríið í sínu heimalandi til æfinga hér ásamt brasilísku félögunum Fluminese og Corinthias.  Mætast þýsku og brasilísku félögin innbyrðis á fimmtudag og laugardag.

Fleiri myndir má finna á Facebook síðu KSÍ.