Þorvaldur Örlygsson ráðinn þjálfari U19 karla
KSÍ hefur ráðið Þorvald Örlygsson í starf þjálfara U19 landsliðs karla, og gildir samningur hans næstu tvö árin. Þorvaldur er knattspyrnuáhugafólki að góðu kunnur, atvinnumaður í knattspyrnu til margra ára og landsliðsmaður.
Á Íslandi lék Þorvaldur með tveimur liðum, KA og Fram, en lengst af stundaði hann sína íþrótt sem atvinnumaður á Englandi, með Nottingham Forest, Stoke City og Oldham Athletic.
Þorvaldur lék fjóra leiki með U21 landsliði karla, en með A-landsliði Íslands á hann að baki 41 leik og skoraði hann í þeim 7 mörk.
Sem þjálfari hefur Þorvaldur áður stýrt liðum KA, Fjarðabyggð, Fram og ÍA. Lengst var hann með Framara, sem hann stýrði í fimm keppnistímabil í Pepsi-deildinni.
KSÍ býður Þorvald velkominn til starfa.