Kveðja frá KSÍ
Á stuttum tíma hefur knattspyrnuhreyfingin mátt horfa á eftir mörgum góðum félögum. Síðast Gunnari Guðmannssyni - „Nunna“, eins og hann var kallaður. Gunnar var einn af litríkustu knattspyrnumönnum landsins. Aðeins 17 ára 1948 var hann einn af þremur nýliðum sem hófu að leika með sterku og sigursælu liði KR, sem varð Íslandsmeistari 1948, 1949, 1950 og 1952 - og hann var fyrirliði meistaraliðs KR 1955.
Nunni var síðan aldursforseti og fyrirliði gullliðs KR 1959, sem varð Íslandsmeistari með fullu húsi stiga þegar fyrst var leikin tvöföld umferð á Íslandsmóti. Hann kunni vel við sig í ungu liði KR, sem varð meistari 1961 og 1963 og Nunni var enn á ferðinni með nýrri kynslóð 1965, þá 35 ára er hann fagnaði sínum níunda meistaratitli. Hann varð bikarmeistari með KR fimm ár í röð, 1960-1964.
Nunni lék 9 landsleiki á árunum 1951-1964 og skoraði tvö mörk. Hann lék sinn fyrsta landsleik 1951 þegar sögufrægur sigur vannst á Svíum á Melavellinum, 4:3, og þá lék hann fyrsta HM-leik Íslands 1957 - gegn Frökkum í Nantes. Gunnar skoraði bæði mörk sín fyrir landsliðið í leik gegn Bandaríkjunum 1955 - sigurmarkið á 85. mín., 3:2. Það vakti þá athygli að Nunni tók þátt í sóknaraðgerðum með sex leikmönnum ÍA og féll vel inn í leik hinna sigursælu Skagamanna.
Nunni var alltaf í boltanum eftir að hann lagði skóna á hilluna. Hann sá um veitingasölu á Melavellinum og síðar á Laugardalsvellinum. Þá sá hann og Anna konan hans um getraunir á upphafsárum Getrauna á Íslandi. Nunni var forstöðumaður Laugardalshallarinnar og var ánægður þegar battaknattspyrnan var tekin upp í höllinni á árum áður.
Gunnar var sannkallaður vinur boltans. Hann naut sín best þegar hann fékk góðar sendingar út á kant og gat hafið leiftursóknir til að hrella andstæðinginn. Aftur á móti var hann ekki hrifinn af ónákvæmum langspyrnum, sem kallaði á hlaup, oft án árangurs.
Knattspyrnuhreyfingin þakkar Nunna hans framlag til að gera knattspyrnuna skemmtilegri. KSÍ kveður Gunnar Guðmannsson með hlýju. Önnu S. Guðmundsdóttur, eiginkonu hans og fjölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.
Geir Þorsteinsson,
formaður KSÍ