• mið. 12. nóv. 2014
  • Landslið

A karla - Belgar höfðu betur i Brussel

UEFA EURO 2016
Logo2016_Prt_Full_OnWht

Belgar höfðu betur gegn Íslendingum í vináttulandsleik sem leikinn var í Brussel í kvöld.  Lokatölur urðu 3 - 1 fyrir Belga eftir að staðan í leikhléi hafði verið jöfn, 1 - 1.

Fyrri hálfleikurinn var bráðfjörugur og sköpuðu Íslendingar sér fjölmörg tækifæri, sérstaklega fyrri hluta hálfleiksins.  Heimamenn komust yfir á 11. mínútu en Alfreð Finnbogason jafnaði metin á 13. mínútu þegar hann fylgdi vel eftir á fjærstöng eftir hornspyrnu Jóhanns Bergs Guðmundssonar.  Belgar voru, að vonum, meira með boltann en sóknir Íslendingar voru skæðar og ógnuðu þeir oft marki.  Belgar fengu einnig góð færi en Ögmundur Kristinsson varði nokkrum sinnum mjög vel í markinu.

Íslendingar byrjuðu síðari hálflleikinn vel en smám saman náðu Belgar yfirhöndinni og skoruðu þeir tvö mörk, á 62. og 73. mínútu.  Fleiri urðu mörkin ekki en okkar menn fengu engu að síður nokkur góð færi í seinni hálfleiknum en höfðu ekki heppnina með sér.  Heimamenn fögnuðu því nokkuð sanngjörnum sigri en frammistaða íslenska liðsins var í heildina góð í leiknum og sýnir að allir í landsliðshópnum eru tilbúnir í slaginn.

Næsta verkefni er enda mjög mikilvægt og spennandi, leikið verður gegn Tékkum í Plzen á sunnudaginn í undankeppni EM.  Þarna mætast þjóðirnar sem eru í tveimur efstu sætunum í riðlinum, bæði með fullt hús stiga.