Tékkar tilkynna landsliðshópinn
Tékkneski landsliðsþjálfarinn, Pavel Vrba, hefur tilkynnt leikmannahópinn sem mætir Íslendingum í undankeppni EM, sunnudaginn 16. nóvember, í Plzen. Valdir eru 22 leikmenn og er markvörðurinn kunni, Petr Cech, þeirra leikreyndastur þegar kemur að landsleikjum en hann hefur leikið 111 slíka.
Tékkar hafa á að skipa mörgum snjöllum knattspyrnumönnum og eru, líkt og Íslendingar, með fullt hús stiga í undankeppninni eftir þrjá leiki. Helmingur leikmanna hópsins leika í heimalandinu og koma þeir einungis frá tveimur félögum. Sex leikmenn koma frá Sparta Prag og fimm koma frá Viktoria Plzen en leikið verður á heimavelli þess félags. Þessi tvö félög eru í efstu sætunum í tékknesku deildinni eftir 13 umferðir en þau mættust um nýliðna helgi þar sem Plzen hafði betur.