• mán. 03. nóv. 2014
  • Dómaramál

"Ótrúlega skemmtilegt að vera dómari"

Bríet Bragadóttir var valin besti dómarinn í PD-kvenna árið 2014
Lokahof-KSI-2014---0033

Bríet Bragadóttir var á dögunum valin besti dómari ársins í Pepsi-deild kvenna en hún var bæði valin af leikmönnum deildarinnar sem og af valnefnd Ölgerðarinnar og KSÍ. Bríet hefur undanfarin misseri unnið sig hægt og bítandi upp innan dómarastéttarinnar og setur hún stefnuna á að dæma meira erlendis á vegum FIFA og UEFA.  Fyrst ætlar hún þó að afla sér sem mestrar reynslu hérna heim.

Hvernig leggst það í þig að fá þessi verðlaun?

„Það er frábært. Það er mikill heiður að vera kosin af leikmönnum deildarinnar. Það er mikil viðurkenning fyrir mig að þær séu ánægðar með störf mín.”

Hvernig kom það til að þú varðst dómari?

„Ég byrjaði á að fara á unglingadómaranámskeið í 3. flokki því að þjálfarinn og félagið hvatti alla til að sækja námskeiðið. Ári seinna lenti ég í meiðslum og á sama tíma var haldið héraðsdómaranámskeið fyrir konur. Þar sem ég gat lítið æft ákvað ég að skella mér. Eftir meiðslin gekk illa að spila fótbolta á keppnisstigi og þá hafði Magnús dómarastjóri hjá KSÍ samband og bað mig um að koma og dæma. Ég sló því til og hef dæmt síðan þá en þetta var árið 2011.”

Hvað eiginleika þarftu að hafa til að verða góður dómari?

„Til að vera góður dómari þarftu að vera í góðu formi, kunna reglurnar og að hafa góðan skilning á leiknum. Mikilvægast af öllu er að gagnrýna sjálfan sig og finna alltaf leiðir til að standa sig betur í næsta leik.”

Hversu mikill tími fer í dómgæsluna hjá þér?

„Það er nokkuð mismunandi yfir árið en það fer þó dágóður tími í þetta líkt og hjá öðrum íþróttamönnum. Á sumrin tek ég leik á um 5 daga fresti og æfi 5 sinnum í viku utan þess. Á undirbúningstímabilinu er þetta leikur á 10-14 daga fresti og æfing 5-6 sinnum í viku. Frá enda tímabils og að undirbúningstímabili æfi ég 5-6 sinnum í viku en hleyp þá mun minna og æfi öðruvísi. Síðan vonast maður eftir því að fara á erlend mót og er það vanalega 1-2 sinnum á ári, þá vanalega viku í senn.”

Hvert stefnirðu í dómgæslunni?

„Stefnan er að verða alþjóðlegur dómari en til þess þarf að vera með FIFA réttindi. Fyrst ætla ég samt að dæma sem flesta stórleiki í boltanum á Íslandi og set síðan stefnuna á HM 2023.”

Það er sagt að kvendómarar geti fljótlega unnið sig upp og fengið verkefni erlendis, er það rétt?

„Já, það er alveg rétt. Það eru mjög fáir kvendómarar á Íslandi og því er auðvelt að vinna sig hratt upp. Kvendómarar fá stór tækifæri og ef þú stendur undir þeim þá nærðu hratt árangri. Ég fór til dæmis til Noregs að dæma á æfingamóti U16 ára landsliða einungis ári eftir að ég byrjaði að dæma. Það frábært að ferðast til annarra landa og hitta aðrar stelpur sem eru líka að dæma. Það er ólýsanleg tilfinning að standa á miðjum vellinum og hlýða á þjóðsöng keppnisþjóðanna í leik sem þú flautar á eftir örfáar mínútur."

Hvaða skilaboð ertu með til kvenna sem hafa áhuga á að spreyta sig í dómgæslunni?

Það er ótrúlega skemmtilegt að vera dómari. Þetta er frábært starf þar sem stór tækifæri bíða rétt handan við hornið. Fyrir utan þá frábæru lífsreynslu sem erlend mót eru, þá er þetta frábær leið til að vera áfram tengd fótboltanum. Þú eignast stóran nýjan vinahóp, þú heldur þér í formi og færð borgað fyrir að stunda þína íþrótt og áhugamál. Ef þið hafið áhuga á að spreyta ykkur setjið ykkur þá í samband við Magnús Má, dómarastjóra, hjá KSÍ og hann leiðbeinir ykkur áfram.”

Árið 2014 dæmdu 17 konur 5 leiki eða fleiri mótsleiki á Íslandi. Konum hefur fjölgað hægt og bítandi í dómgæslu á undanförnum árum og það er stefna KSÍ að sú þróun haldi áfram. Núna eru 5 konur í landsdómarahópnum. Tvær þeirra verða vonandi á FIFA listanum 2015. Erlendum verkefnum fjölgar með hverju ári og þau verða fleiri eftir því sem FIFA dómurum fjölgar í hópi kvenna. Það sem hefur helst staðið í veginum fyrir fjölgun fjölgun íslenskra kvenna á FIFA listanum til þessa eru aldurskröfur  sem FIFA setur. Til að komast inn á FIFA listann þarf dómarinn að vera 25 ára og aðstoðardómarinn 23 ára.  Í mars síðastliðnum fóru 3 konur til Spánar og dæmdu 3 leiki á æfingamóti á vegum Norska knattspyrnusambandsins. Um var að ræða U-23 ára mót landsliða. Tvær dæmdu á NM-U17 sem haldið var í Svíþjóð í júlí. FIFA aðstoðardómarinn Rúna Kristiín Stefánsdóttir var að störfum á í HM leikjum sem leiknir voru í Englandi og Rúmeníu auk þess sem hún starfaði á úrslitakeppni U-19 kvenna sem haldin var í Noregi í júlí.  

Þeir sem vilja gerast dómarar byrja á því að mæta á unglingadómaranámskeið hjá KSÍ. Námskeiðin eru haldin hjá félögunum og eru auglýst á heimasíðu KSÍ með viku fyrirvara. Héraðsdómaranámskeið eru haldin í lok mars hvert ár. Auk þessa eru námskeið fyrir dómara í janúar og febrúar þar sem sérstök áhersluatriði eru tekin fyrir. Einnig er námskeið fyrir aðstoðardómara í febrúar.

Bríet Bragadóttir var valin besti dómarinn í PD-kvenna árið 2014