• þri. 14. okt. 2014
  • Landslið

Danir höfðu betur með minnsta mun

Merki U21 karla
UEFA_U21_karla

Það voru Danir sem tryggðu sér sæti í úrslitakeppni EM í kvöld eftir að Ísland og Danir gerðu jafntefli, 1 - 1.  Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli og því komust Danir áfram á útivallamarkinu.  Danir komust yfir á 90. mínútu en Hólmbert Aron Friðjónsson jafnaði metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Danir réðu ferðinni lengst af í leiknum og snemma leiks varði Fredrik Schram frábærlega skalla gestanna.  Fredrik stóð í markinu eftir að Rúnar Alex Rúnarsson reyndist ekki leikfær eftir upphitun.  Danir sóttu stíft að marki Íslands fyrri hluta hálfleiksins en meira jafnvægi kom í leikinn þegar leið á. 

Seinni hálfleikurinn var jafnari þó svo að gestirnir hafi ráðið ferðinni.  Íslendingar héldu að þeir hefðu komist yfir seint í leiknum en markið var dæmt af.  Það var svo á 90. mínútu að Danir skoruðu eftir langt innkast.  Sverrir Ingi Ingason var svo felldur innan vítateigs stuttu síðar og Hólmbert skoraði úr vítinu.  Tíminn reyndist of naumur og Danirnir fögnuðu sætinu í Tékklandi innilega.

Vonbrigðin voru gríðarlega mikil hjá íslensku strákunum enda voru þeir grátlega nærri Tékklandi í þetta skiptið.  Frammistaðan var hinsvegar til fyrirmyndar og baráttan og liðsheildin í liðinu til eftirbreytni.