• mán. 13. okt. 2014
  • Landslið

Magnaður sigur á Hollandi

Ísland - Holland 2014
omar2

Karlalandsliðið okkar sá áhorfendum í Laugardalnum og víðar fyrir eftirminnilegu kvöldi þegar þeir lögðu Holland í undankeppni EM.  Lokatölur urðu 2 - 0 og skoraði Gylfi Þór Sigurðsson bæði mörk kvöldsins í fyrri hálfleik.  Ísland er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki, jafnmörg stig og Tékkar.

Stemningin var frábær í allt kvöld og aðeins einu sinni féll allt í dúnalogn í Laugardalnum, þegar Gylfi undirbjó sig til að taka vítaspyrnu á 10. mínútu leiksins.  Vítaspyrnan var dæmd eftir að brotið hafði verið á Birki Bjarnasyni sem sýndi þar gríðarlega seiglu.  Fögnuðurinn varð svo gríðarlegur þegar hann setti boltann í markið og hann varð ekki minni á 42. mínútu þegar Gylfi setti boltann í þaknetið eftir mikla baráttu í teignum í kjölfar hornspyrnu Emils Hallfreðssonar.

Ísland - Holland 2014Sama barátta, yfirvegun og dugnaður einkenndi leik íslenska liðsins í seinni hálfleik, eins og þeim fyrri.  Gestirnir voru með boltann lengst af í leiknum en íslenska liðið gaf engin færi á sér og fengu betri færi heldur en Hollendingar í heildina.  Það var svo frábær liðsheild sem fagnaði innilega sigri í leikslok ásamt 9.760 áhorfendum sem létu svo sannarlega finna fyrir sér allan leikinn.

Frábær sigur og fullt hús íslenska liðsins eftir þrjá leiki og enn hefur liðið ekki fengið á sig mark í keppninni.  Næsti leikur Íslands í undankeppninni er gegn Tékkum á útivelli, sunnudaginn 16. nóvember, sem lögðu Kasaka í dag á útivelli, 2 - 4.  Tékkar hafa einnig 9 stig eftir þrjá leiki en í þriðja leik riðilsins gerðu Lettar og Tyrkir jafntefli, 1 - 1.  Áður en leikið verður gegn Tékkum, þá leikur íslenska liðið gegn Belgum ytra, miðvikudaginn 12. nóvember.

Ísland - Holland 2014