U21 karla - Æft á keppnisvellinum í dag
Strákarnir í U21 æfa í dag á keppnisvellinum, Aalborg Stadium, en þar fer fram fyrri leikur Danmerkur og Íslands í umspili um sæti í úrslitakeppni EM 2015 á morgun. Liðið æfði tvisvar í gær og endurheimti þá farangur sinn sem hafði tekið auka ferðalag.
Þar sem farangurinn var ekki kominn í tæka tíð fyrir fyrri æfingu gærdagsins þá var brugðið til þess ráðs að fá lánaðan æfingafatnað hjá AaB, heimaliðinu hér í Álaborg. Var það auðsótt og eiga Álaborgarmenn miklar þakkir skildar fyrir liðlegheitin. Seinni æfingin fór hinsvegar fram í öllu kunnuglegri æfingafatnaði en þá hafði farangurinn borist til Álborgar en báðar æfingar gærdagsins fóru fram á glæsilegu æfingasvæði AaB.
Íslendingar í Álaborg og víðar ætla ekki að láta sitt eftir liggja og ætla að styðja okkar stráka á morgun. Þeir ætla að koma saman á John Bull Pub um 14:30 á leikdag og leggja svo á stað á völlinn á milli 16:30 og 17:00. Þar ætla þeir að koma sér fyrir í stúku sem ætluð er aðkomuliðum, við inngang 7 og 8. Frítt er inn á völlinn í Álaborg og eru Íslendingar á svæðinu hvattir til þess að fjölmenna á völlinn.