U21 karla - Hópurinn kominn til Álaborgar
Strákarnir i U21 liðinu kom til Álaborgar í dag en á föstudaginn verður leikið við Dani í umspili um sæti í úrslitakeppni EM. Um er að ræða fyrri leik þjóðanna en seinni leikurinn verður á Laugardalsvelli, þriðjudaginn 14. október kl. 16:15.
Hópurinn kom til Álaborgar í dag í gegnum Kaupmannahöfn og má segja að það hafi verið íslenskt veður sem tók á móti hópnum, vindur og votviðri. Það sem hinsvegar beið ekki hópsins á áfangastað var farangurinn en vegna verkfalls hlaðfólks á Kastrup flugvelli, þá var hann skilinn eftir þar á bæ. Farangurinn ætti að koma seinna í kvöld eða snemma í fyrramálið en heimaliðið hér í borg, AaB, hefur boðist til að lána æfingafatnað sinn fyrir morgunæfinguna ef farangurinn skilar sér ekki í tíma.
Það fer engu að síður vel um hópinn í Álaborg en kvöldið verður notað til að funda um þessi spennandi verkefni sem framundan eru.