• mán. 29. sep. 2014
  • Landslið

Icelandair áfram einn aðalstyrktaraðili KSÍ

ISI-Icelandair-undirritun-ljosm-siggianton-9819-Nytt1

Icelandair endurnýjaði nýverið samninga um að vera aðalstyrktaraðili Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og fjögurra sérsambanda innan þess, þ.e. Knattspyrnusambands Íslands, Handknattleikssambands Íslands, Körfuknattleikssambands Íslands og Golfsambands Íslands. 

Samningarnir sem undirritaðir voru í dag eru umfangsmiklir og fela í sér víðtækt samstarf Icelandair og þessara íþróttasambanda. Með þessum samningum styður Icelandair dyggilega við starf viðkomandi sérsambanda og landsliðsstarf þeirra sem felur í sér mikil og kostnaðarsöm ferðalög um allan heim. Með samningi Icelandair og ÍSÍ hefur Icelandair staðfest áframhaldandi þátttöku sína sem einn af aðalstyrktaraðilum í Ólympíufjölskyldu ÍSÍ til ársins 2017. 

„Það er mjög ánægjulegt fyrir Icelandair að geta staðfest áframhaldandi samstarf og stuðning með þessum hætti. Íþróttir eru mikill drifkraftur ferðalaga um allan heim og Íslendingar eiga margt afreksfólk á heimsmælikvarða sem veita landsmönnum mikla ánægju og eru öðrum þátttakendum hvatning til dáða“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. 

Á vegum Icelandair ferðast árlega tugir þúsunda farþega vegna íþrótta, bæði sem iðkendur og áhorfendur. Fyrir utan hefðbundnar æfinga- og keppnisferðir íþróttafólks þá tengjast algengustu sérferðirnar golfi og skíðaíþróttinni. Þegar kemur að áhorfendaferðum er það knattspyrnan í Englandi sem nýtur mestra vinsælda. Þá eru hér á landi árlega fjöldamargir leikir og fjölmenn alþjóðleg íþróttamót sem laða að þáttakendur alls staðar að úr heiminum. 

„Okkar bestu íþróttamenn vekja sömuleiðis mikla athygli fjölmiðla og íþróttaáhugafólks úti í heimi og eru góð kynning á landinu, á sama hátt og fremsta tónlistarfólk okkar, en Icelandair hefur einmitt lagt áherslu á íþróttir og tónlist í styrktarstefnu sinni“, segir Birkir.